Border collie

Subtitle

 Um Border Collie

 

Útlit
Góð hlutföll, jafnar útlínur sem sýna gæði, tígulleika og fullkomið jafnvægi ásamt nægri fyllingu til að gefa þol til kynna.  Allar tilhneigingar sem benda til grófleika eða veikleika eru óæskilegar.

Border collie eru oftast svartir með hvíta blesu, hvítan kraga, hvíta sokka og með hvíta týru í skottinu. Þeir geta einnig verið með aðra grunnliti svo sem brúnir, bláir og gulir einnig geta þeir líka verið yrjóttir. Hvítur litur skal þó aldrei vera ríkjandi.  Eyrun skulu vera meðalstór með góðu bili.  Hálf upprétt eða upprétt.  Skottið skal vera miðlungs langt, liggur lágt, vel loðið og beygist neðst upp í krók. Skottið má lyftast þegar hann er spenntur en það liggur aldrei yfir bakið.

 Hæð rakka skal vera 53 – 55cm en tíkur aðeins minni.

Skapgerð
Mjög meðfærilegur, þolgóður og vinnusamur fjárhundur. Ákafur vakandi, móttækilegur og gáfaður.  Hvorki taugaveiklaður né árásargjarn. Þeir eru geðgóðir og þægilegir heimilishundar sem vilja umfram allt gera eiganda sínum til hæfis og þjóna honum. Border collie líður best ef hann fær að vinna fyrir eigandann og er Border collie talinn einn besti fjárhundurinn. Sem fjárhundur þá telst hann til sækjandi fjárhunda og leitast alltaf við að safna fénu saman í hóp og koma með það til eigandans, hann vinnur hljóður. Það er útbreiddur misskilningur að hann þurfi að hlaupa allan daginn, aðalatriðið er að láta hann hafa eitthvað til að gera/ hugsa. Til dæmis að leika með bolta og fara í góðan göngutúr er fín þjálfun. Auðvelt er að kenna Border collie nánast hvað sem er. Border collie geta verið mjög góðir t.d .í hlýðni, hundafimi, hundadansi, leitar og björgunarhundur og svo mætti lengi telja.

Uppruni
Border collie kemur frá landamærum Englands og  Skotlands og er sækjandi fjárhundur. Sé Border collie sleppt í fé er það eðli hans að safna hópnum samann og leitast við að koma með hann til mannsins. 

Umhirða
Það eru tvær feldtýpur af Border collie snögghærður og loðinn. Í báðum tilfellum eru yfirhárin þétt með miðlungs áferð, undirhárin eru mjúk og þétt og verja vel fyrir veðri.  Gott er að kemba þeim reglulega til að forðast flækjur.

Hreyfing og vinna
Border Collie er vinnusamur og orkumikill hundur sem þarf bæði andlega örvun og líkamlega hreyfingu. Hann á gott með að læra og er duglegur vinnuhundur. Border Collie er traustur og góður hundur og trúr eiganda sínum og fjölskyldu. Hann er virkur og klár hundur sem þarf að fá að hugsa og er verulega snöggur að læra nýjar kúnstir og hefur gaman af því.  Hann er frábær smali sem flokkast undir að vera sækjandi fjárhundur að sjálfsögðu er svo hægt að þjálfa hann í að smala fleiri dýrategundum.

Border Collie á Islandi
Það hafa lengi verið Border Collie hundar á Íslandi en það var fyrst upp úr 1990 sem það var skráður Border Collie í Hrfí.  Innfluttir hundar eru 4 sem koma frá Englandi, Ameríku, Belgíu og Finnlandi.

Tegundar einkenni Border Collie

Border Collie er vinnusamur greindur, kraftmikill og fjörugur hundur sem er ánægðastur þegar hann hefur verk að vinna.

Border Collie þarf andlega örvun og hreyfingu.

Border Collie er félagslyndur og vingjarnlegur hundur.

Border Collie er frábær smalahundur og hefur gaman af leikjum og þrautum.

Border Collie er oft notaður sem leitar og björgunarhundur.

Border Collie getur haft ýmsa grunnliti. Hvítur litur skal þó aldrei vera ríkjandi. 

Border Collie rakkar eiga að vera á bilinu 53cm á herðakamb og tíkur eitthvað minni. 

Border Collie  er sýndur í tegundarhóp 1. á sýningum Hrfí.

Border Collie tilheyrir Fjár og Hjarðhundadeild Hrfí

 

 

 

 

Border collie sem fjárhundur

 

Eðli border collie er að hann er sækjandi fjárhundur og leitast við að safna hópnum saman og koma með hann til smalans.  Hann hefur frá upphafi verið ræktaður sem fjárhundur með góða yfirsýn og  gott lag á kindum. Getu til að vinna sjálfstætt að fjárhóp jafnframt því að geta unnið vel undir stjórn smalans.  Einnig hefur verið lögð áhersla á heilbrigði og getu til að vinna langan vinnudag við að safna saman og sækja fjárhópa.

Þegar Border collie sækir hóp af kindum hleypur hann af stað á miklum hraða og fer í víðan boga og kemur að kindunum þannig að þær séu staðsettar á milli hans og smalans, því næst læðist hann nær þeim og með yfirvegun og jafnvægi í hegðun og hreyfingu nær hann fljótt stjórn á hópnum og rekur hann í átt til smalans ef hann er ekki beðin um annað.  Hann er þekktur fyrir hæfileika sína til þess að vinna sjálfstætt í kindum án þess að hafa stjórn smalans og getur því smalinn sent hann jafnvel langar leiðir úr augsýn og treyst á innsæi hans og smalahæfileika til þess að koma með hópinn sé hundurinn nægjanlega vel þjálfaður. 

Border collie er enn notaður sem fjárhundur út um allan heim og það hefur sýnt sig hérlendis að jafnvel hundar sem aldrei hafa séð kindur hafa komið í fjárhundaeðlis próf og staðist það með prýði þar sem eðlið hefur komið fram um leið og hundarnir komast í fé.

Víða eru haldnar fjárhundakeppnir bæði hérlendis og erlendis þar sem hundurinn á að sækja hóp af fé þó nokkra vegalengd.  Í þeim þarf hundurinn að sýna að hann getur bæði sótt og rekið fé undir stjórn, jafnvel skipt hópnum í tvennt og að lokum rekið hann inn í rétt, í þessum keppnum er Border collie frábær sé hann vel taminn.  Þegar að kemur að því að temja Border collie í fé er best og vænlegast til árangurs að nota hundvant fé, þ.e. kindur sem eru vanar hundum og kunna að gefa eftir og hlýða þeim.

Einnig er nauðsynlegt svo að hlutirnir gangi vel að hundurinn kunni að koma, liggja/sitja og vera kyrr.  Sé eðlið gott í hundinum leitast hann strax við að safna hópnum saman og halda honum að smalanum og þá er eftirleikurinn auðveldur fyrir smalann.  Hann þarf í raun bara að setja skipanir á það sem hundurinn er að gera. 

Þegar hundurinn hleypur af stað þá getur maður notað orðið “sækja” svo þegar hundurinn er kominn hinumeginn við féð og fer að læðast í áttina að því  til að fá það til að koma til smalans getur maður sagt orðið “nær”.  Nú þegar hópurinn stendur fyrir framan smalann þá getur hann fært sig örlítið til hægri og þá vill hundurinn strax færa sig líka til að vera í jafnvægi við smalann og þá segir maður “vinstri” og svo öfugt þegar maður færir sig í hina áttina þá “hægri”  muna bara að kenna vinstri og hægri miðað við hundinn sem sagt alltaf miða við að maður snúi eins og hundurinn.  Ef hundurinn fer að hlaupa of mikið og æsast þá er alltaf hægt að grípa til þess að láta þá sitja/liggja og vera kyrr og þá róast þeir og hægt er að halda áfram.

Þegar hundurinn kann orðið þessar fáu skipanir “sækja” “nær” “vinstri” og “hægri” er maður kominn með grunninn að góðum fjárhundi og svo er lengi hægt að bæta við og fínpússa!! Þessi þjálfun er gríðarlega skemmtileg og gaman að hafa tækifæri að vinna með góðum og yfirveguðum hundi.

 

 

 

 

Ræktunnarstaðall skoskra landamærafjárhunda

Border Collie

(Íslensk þýðing á kafla úr bókinni “The Show Border Collie” eftir Joyce Collis)

 

 

Almennt útlit:

Góð hlutföll, jafnar útlínur sem sýna gæði, tígulleika og fullkomið jafnvægi ásamt nægri fyllingu til að gefa þol til kynna.  Allar tilhneigingar sem benda til grófleika eða veikleika eru óæskilegar.

 

Skapgerðareinkenni:

Mjög meðfærilegur, þolgóður og vinnusamur fjárhundur.

 

Lunderni:

Ákafur vakandi, móttækilegur og gáfaður.  Hvorki taugaveiklaður né árásargjarn.

 

Höfuð og hauskúpa:

Kúpan er frekar breið, hnakkinn lítið áberandi.  Kinnar hvorki bústnar né kringlóttar. Vöðvinn sem mjókkar niður að nefinu er hæfilega stuttur og sterkur.  Höfuðkúpa og trýni u.þ.b. jafn löng.  Stoppið er greinilegt.

 

Nefið:

Það skal vera svart nema á brúnum hundum en á þeim má það vera brúnt.  Á kolgráum ætti nefið að vera dökkkolgrátt.  Nasir eru vel þroskaðar.

 

Augu:

Það er langt á milli þeirra, egglaga, miðlungsstór, brún nema á kolgráum hundum sem meiga hafa annað eða bæði eða hluta af öðru eða báðum augum dökkblágrá.  Svipur mildur, ákafur, vakandi og gáfulegur. 

 

Eyru:

Meðalstór með góðu bili.  Hálf upprétt eða upprétt.  Næm í notkun.

 

Munnur:

Tennur og kjálkar sterk með fullkomið skæra-bit.  Örlítið yfirbit.  Jaxlar beinir.

 

Háls:

Góð lengd, sterkir vöðvar, dálítið bogin og breikkar niður að öxlum.

 

Framhluti:

Framfætur eru samsíða þegar þeir eru skoðaðir framan frá.  Kjúkan hallast dálítið skoðuð frá hlíð.  Beinin eru sterk en ekki þung. Axlirnar liggja vel aftur, olnbogar nálægt líkamanum.

 

Búkur:

Stæltur, rifbein fjaðrandi.  Bringan hvelft og frekar breið, lendar hvelftar og kraftalegar en ekki samandregnar.  Búkurinn á að vera aðeins lengri en axlarhæðin.

 

Afturhluti:

Breiður, kraftalegur frá hlið (hallast þokkafullur að skottinu)  Skottið aflíðandi frá lend.  Lærin eru löng og hvelft, kraftaleg með vel snúnum hnjáliðum og sterkir greinilegir hæklar.  Frá hækli og niður eru afturfætur beinaberir og samsíða þegar skoðað er aftanfrá.

 

Fætur:

Egglaga, þófar, djúpir og sterkir.  Tær bognar og þétt saman.  Klær stuttar og sterkar.

 

Skott:

Miðlungs langt, brjóskið nær niður að hælbeini, liggur lágt, vel loðið og beygist neðst upp í krók og fullkomnar tígulegt yfirbragð og jafnvægi hundsins.  Skottið má lyftast þegar hann er spenntur en það liggur aldrei yfir bakið.

 

Göngulag og hreyfingar:

Frjálst mjúkt og líflegt með lítilli fótlyftu sem gefur til kynna hæfileika til að hreyfa sig hratt og laumulega.

 

Feldur:

Tvær tegundir 1) meðallöng hár 2) snöggur feldur.  Í báðum tilfellum eru yfirhárin þétt með miðlungs áferð, undirhárin eru mjúk og þétt og verja vel fyrir veðri.  Miðlungs feldur, hefur tilbrigði, langhærður feldur myndast á makka, afturenda og skotti Á andliti, eyrum og framlöppum ( að undanskyldum hárbrúski aftan á löpp) á löppum frá hækli að jörð eiga hárin að vera stutt og mjúk.

 

Litur:

Ýmsir litir leyfilegir.  Hvítt má þó aldrei vera yfirgnæfandi.

 

Stærð:

Kjörhæð hunda er 53 cm, tíkur eru aðeins minni.

 

Gallar:

Öll frávik frá ofangreindu skal líta á sem galla.  Meta skal gallana í nákvæmu hlutfalli við það hve áberandi þeir eru.

 

Athugasemd:

Hundar skulu hafa tvö eðlileg eystu sem eiga að vera komin niður í punginn.